Skráðu þig

Aðalkvöld Tinds - Aðalfundur og lokahóf

5.10
2014
23:34

Aðalkvöld Tinds - Aðalfundur og lokahóf

Kæri félagi.

 

Þá er komið að því, þann 18.október næstkomandi mun Tindur halda uppskeruhátið og aðalfund eftir besta ár félagsins til þessa.

Við biðjum þá sem eiga eftir að ganga frá greiðslu félagsgjalda fyrir árið 2014 að gera það sem fyrst. Tæmandi listi yfir félagsmenn má finna á Tindur.org, ef það félagsgjöld hafa verið greidd en af einhvejrum ástæðum þú byrtist ekki í listanum vinsamlegast hafið samband við gjaldkera félagsins, David Robertsson.

Dagskrá dagsins:

16:00 - Mæting á N1 Fossvogi

18:30 - Aðalfundur settur.

20:00 - Aðalkvöldið hefst með veislu A la Jói B aka Gullfoss.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosinn fundarstjóri og fundarritari

 2. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

 3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

 4. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.

 5. Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir sbr. 14. grein*

 6. Kosning í stjórn félagsins;

  1. kosinn formaður.

  2. kosinn gjaldkeri.*

  3. kosinn fjölmiðlafulltrúi.*

  4. kosinn keppnisfulltrú.*

  5. kosinn æfingafulltrúi.*

  6. kosnir einstaklingar í nefndir.*

 7. Skýrslur og tillögur fráfarandi nefnda

 8. Önnur mál.

?

Við höfum öll unnið hörðum höndum að því að standa okkur vel í keppnum og æfingum og þá eigum við skilið að gera gott við okkur í eitt kvöld og skemmta okkur, borða góðan mat og drekka veigar.

 

Við ætlum að hittast kl 16.00 á N1 í Fossvogi og hjóla saman upp í ÍR - Víkings skálann í Bláfjöllum. Á N1 verður bíll sem trússar töskur fyrir ykkur upp í skála en þar mun vera hægt að fara í sturtu og skipta yfir í betri fötin og dansskóna. Þegar allir eru orðnir hreinir og fínir þá verður létt hressing og kl 18.30 hefst aðalfundur. Fundurinn verður stuttur og laggóður en þar mun verða kosið í nýja stjórn félagsins ásamt æfinganefnd og keppnisnefnd. Kl 20 verður matur, Jói B AKA Gullfoss ætlar að sjá um að gefa okkur einhvern dýrindis mat og boðið verður upp á bjór og gos með matnum.

 

Eftir mat verða haldnir Tindsleikarnir en þar mun verða keppt í hinum ýmsu þrautum þar sem allir fá tækifæri til að vinna Ómarssynina í keppni! Vegleg verðlaun eru í boði fyrir stigahæsta aðilann. Eftir leikana leikur Jói B fyrir dansi þar til rútur keyra okkur í bæinn. Við ætlum að hafa tvær rútur, ein fer á miðnætti og önnur kl 2 um nóttina. Hjólakerra tekur hjólin með í bæinn og það er einnig hægt að geyma hjólin uppfrá og sækja þau daginn eftir.

 

Þessu viljið þið ekki sleppa svo takið daginn frá!

Lagabreytingar:

Nýjar greinar

5.1 grein

Formaður

Formaður er helsti talsmaður félagsins og sér til þess að félagið sé virkt í sínu starfi og sinni hlutverki sínu. Jafnframt skal Formaður beita sér í framþróun á hjólreiðaíþróttinni hérlendis. Formaður skal jafnframt boða til mánaðarlegra stjórnarfunda, en hefur heimild til að fresta eða fella niður stjórnarfund ef rík ástæða þykir til.

 

5.2 grein

Gjaldkeri

Hefur prókúru á reikninga félagsins, sér um að félagsgjöld séu innheimt ásamt því að hafa yfirumsjón með því að keppnisgjöld séu greidd og samþykkir helstu útgjöld á vegum félagsins. Gjaldkeri er einnig ábyrgur fyrir reikningsskilum félagsins.

 

5.3 grein

Fjölmiðlafulltrúi

Fjölmiðlafulltrúi sér til þess að félagið sé virkt í skrifum á bloggi félagsins (tindur.org) og félagsmiðlum, þá einna helst á Facebook síðu félagsins. Helst má nefna frásagnir frá keppnum sem félagið heldur og frásagnir af árángri félagsmanna í öðrum keppnum eða viðburðum.

 

5.4 grein

Keppnisfulltrúi

Keppnisfulltrúi er jafnframt formaður Keppnisnefndar, er talsmaður hennar innan stjórnar Tinds og hefur yfirumsjón með því að nefndin sé virk í sínum störfum og sinni sínu hlutverki.

 

5.5 grein

Æfingafulltrúi

Æfingafulltrúi er jafnframt formaður Æfinganefndar, er talsmaður hennar innan stjórnar Tinds og hefur yfirumsjón með því að nefndin sé virk í sínum störfum og sinni sínu hlutverki.

 

6.grein

Keppnisnefnd

Nefndin skal skipuð að lágmarki fjórum einstaklingum. Hlutverk nefndarinnar er að halda upp öflugum keppnum á vegum Tinds, tryggja að skipaður sé keppnisstjóri fyrir hverja og eina keppni. Einnig skal nefndin leitast til þess að keppnir á vegum félagsins hafi uppbyggjandi áhrif á hjólreiðaíþróttina hérlendis bæði í þáttakandafjölda og getu keppnismanna.

 

7.grein

Æfinganefnd

Nefndin skal skipuð að lágmarki fjórum einstaklingum. Hlutverk nefndarinnar er að halda upp öflugu æfingastarfi á vegum Tinds, með sérstakri áherslu á unglinga og yngri hjólreiðamenn.

 

10. grein

Kjörnefnd

Kosið skal í kjörnefnd í byrjun hvers aðalfundar. Í kjörnefnd skulu þrír löggildir meðlimir Tinds sitja, þeir sem sitja í kjörnefnd hafa fyrirgert rétt sínum til framboðs í viðkomandi kosningum.

 

Breitingar á greinum

2. grein

Markmið

Meginmarkmið Tinds er iðkun íþrótta, sér í lagi hjólreiðaíþrótta, að efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt og stuðla að aukinni uppbyggingu í kringum félagsstarfsemi. Félagið skal leitast til að ná settum markmiðum með því að halda úti öflugum hjólreiðakeppnum og æfingastarfi. Sérstaka áherslu skal leggja á þáttöku ungmenna í keppnum og æfingum félagsins.

 

3. grein

Félagar

Hver sá sem greiðir félagsgjald til félagsins er félagi í Tindi, auk þeirra sem stjórn Tinds samþykkir að skuli skrá sem félaga en er undanþeginn greiðslu félagsgjalds af sérstökum ástæðum.  Félagar fara með eitt atkvæði á aðalfundi og öðrum fundum félagsins og eru jafnframt kjörgengnir til stjórnar og nefnda félagsins.  Einstaklingar yngri en 16 ára hafa ekki atkvæðisrétt né kjörgengi.

 1. Félagsgjöld eru 8.900.-kr fyrir hvert ár hvert, innifalin eru aðildargjöld að HRÍ.

 2. Gildistími er frá 1. Janúar til 31. Desember.

 3. Eftir 1. Ágúst er veittur 50% afsláttur til nýrra meðlima af gjaldi sama árs.

 4. Félagsgjöld skulu greidd eigi síður en 1. Apríl ár hvert.

 

5. grein verður 9. grein

 

9. grein

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í október ár hvert.  Til aðalfundar skal boðað með tveggja vikna fyrirvara og skal hann boðaður öllum félagsmönnum skriflega, á póstlista félagsins og á heimasíðu.  Aðalfundur félagsins er löglegur sé löglega til hans boðað, án tillits til hversu margir mæta á fundinn.

 

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosinn fundarstjóri, fundarritari og kjörnefnd.

 2. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

 3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

 4. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.

 5. Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir sbr. 14. grein

 6. Kosning í stjórn félagsins;

  1. kosinn formaður.

  2. kosinn gjaldkeri.

  3. kosinn fjölmiðlafulltrúi.

  4. kosinn keppnisfulltrúi.

  5. kosinn æfingafulltrúi.

  6. kosnir einstaklingar í nefndir.

 7. Skýrslur og tillögur fráfarandi nefnda

 8. Önnur mál.

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála, sbr. þó 12. grein.  Kosning skal vera skrifleg nema aðeins komi fram ein uppástunga til stjórnarstarfa, þá telst sá sem tilnefndur er, sjálfkjörinn.

6. grein verður 11. grein

 

7. grein verður 12. grein

 

8. grein

Afsögn stjórnar

Komi til þess að stjórn eða stakur stjórnarmeðlimur segir af sér störfum skal boða til félagsfundar og nýr/nýjir fulltrúi/fulltrúar kosnir til sama tíma og fráfarandi fulltrúar voru áður kosnir.

 

11. grein verður 13. grein

 

12. grein verður 14. grein

 

13. grein verður 15. grein

 

14. grein verður 5. grein

Útfelldar greinar

15. grein

 

*Samkvæmt fyrirliggjandi lagabreytingu

 
Óskar Ómarsson
Síðast breytt þann 5. október 2014 kl: 23:40 af Óskar Ómarsson