Skráðu þig

Ingvar og María sigruðu fyrstu fjallahjólakeppni sumarsins

6.05
2014
00:00

Ingvar og María sigruðu fyrstu fjallahjólakeppni sumarsins

María Ögn Guðmundsdóttir (Tindi) og Ingvar Ómarsson (Tindi) urðu sigurvegarar í fyrstu fjallahjólakeppni ársins sem Hjólreiðafélag Reykjavíkur hélt miðvikudaginn 30.apríl. Markið og HFR héldu fyrstu fjallahjólakeppni sumarsins við Rauðavatn í lok apríl. Keppt var í tveimur flokkum, keppnisflokki og byrjendaflokki. Karlaflokkur A hjólaði 4 hringi í brautinni, kvennaflokkur A hjólaði 3 hringi og B flokkar hjóluðu 2 hringi. Brautin var skemmtileg, hröð og með þó nokkru klifri á köflum.

Í kvennaflokki A tók María Ögn forystuna og hélt henni út keppnina. Á eftir henni fylgdu þær Þorgerður Pálsdóttir (Tindi), Þóra Katrín Gunnarsdóttir (Tindi), Kristín Edda Sveinsdóttir (HFR) og Margrét Pálsdóttir (HFR). Mikil keppni var á milli þeirra allra og náði Þóra að slíta sig frá hópnum í lok fyrsta hrings og endaði hún í öðru sæti. Við marklínuna tók Margrét fram úr Kristínu Eddu og hafnaði hún því í þriðja sæti. Aðeins um ein mínúta var á milli 2.sætis og 5.sætis. Í karlaflokki stakk Ingvar Ómarsson (Tindi) fljótlega af á fyrsta hring, tók mjög örugga forystu og hélt henni út keppnina og landaði fyrsta sætinu. Á eftir honum komu svo þeir Helgi Berg Friðþjófsson (HFR) í öðru sæti og Óskar Ómarsson (Tindi) endaði í þriðja sæti eftir harða baráttu við Bjarka Bjarnason (Tindi) og Emil Þór Guðmundsson (Tindi), en Bjarki var það óheppinn að sprengja dekk og dró það hann út úr baráttunni um þriðja sætið. Brautin var mjög hröð og tóku allir keppendur vel á því til að ná þessum frábæra árangri.

 

Keppnin við Rauðavatn er fyrsta keppnin í bikarmótaröðinni í XC og er því staðan í mótaröðinni að María Ögn Guðmundsdóttir er efst í kvennaflokki, á eftir henni kemur Þóra Katrín Gunnarsdóttir og í þriðja er Margrét Pálsdóttir. Í karlaflokki er Ingvar Ómarsson efstur, Helgi Berg í öðru og Óskar Ómarsson í þriðja sæti.

 

Myndir tók Georg Vilhjálmsson, sjá fleiri hér

 
Þorgerður Pálsdóttir
Síðast breytt þann 6. maí 2014 kl: 22:26 af Þorgerður Pálsdóttir