Skráðu þig

Ingvar og María sigurvegarar Shimano Reykjanesmótsins

1.05
2014
00:00

Ingvar og María sigurvegarar Shimano Reykjanesmótsins

Ingvar Ómarsson hjólreiðamaður og María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðakona urðu sigurvegarar í fyrstu götuhjólreiðakeppni ársins í Reykjanesmótinu nú síðastliðinn sunnudag. Reykjanesmótið í götuhjólreiðum er fyrsta keppni ársins í götuhjólreiðum. Keppt var í tveimur flokkum, keppnisflokki 64 km og byrjendaflokki 32 km. Ræst var frá Sandgerði kl 10 og hjólað í átt að Reykjanesvirkjun. Veðrið var ágætis vorveður, sól og mikill vindur. Keppendur fengu meðvind í byrjun brautar en eftir að snúið var við hjá Reykjanesvirkjun tók við mikill mótvindur alla leið í mark.

 

 

 

Í karlaflokki tóku þeir Hafsteinn Ægir Geirsson Tindi og Ingvar Ómarsson Tindi forystuna og náðu að slíta sig frá hópnum í meðvindinum í byrjun brautar. Í hópnum fyrir aftan voru svo þeir Miroslaw Adam Zyrek HFR, Helgi Berg HFR, Óskar Ómarsson Tindi, Árni Már Jónsson HFR og Davíð Þór Ingvarson HFR. Keppnin var hörð og í mótvindinum á leið frá Reykjanesvirkjun náði annar hópur þeim Ingvari og Hafsteini og fylgdu þeim í endasprettinn. Endaspretturinn var æsispennandi og byrjaði Óskar Ómarsson að keyra upp hraðann þegar um 1km eftir til að leiða út Ingvar í sinn endasprett. Þegar um 200 metrar voru í mark, var Ingvari sleppt lausum og hóf hann glæsilegan endasprett sem skilaði honum fyrstum í mark með Hafstein aðeins einni sekúndu síðar. Í þriðja sæti var Miroslav, fjórða sætið tók Helgi Berg og í fimmta kom Óskar Ómarsson. Á eftir honum kom svo Árni Már í sjötta sæti. Kvennaflokkurinn byrjaði hratt og tók María Ögn fljótt forystuna og hélt henni út keppnina. Á eftir henni kom Margrét Pálsdóttir í öðru sæti og Ása Guðný Ásgeirsdóttir í því þriðja.

 

Reykjanesmótið er fyrsta keppnin í bikarmótaröðinni og er því staðan í mótaröðinni að María Ögn Guðmundsdóttir er efst í kvennaflokki, á eftir henni kemur Margrét Pálsdóttir og í þriðja er Ása Guðny Ásgeirsdóttir. Í karlaflokki er Ingvar Ómarsson efstur, Hafsteinn Ægir Geirsson í öðru og Miroslav Adam Zyrek í þriðja sæti.

 

Myndir tók Árni Már Árnason, sjá fleiri hér

 
Þorgerður Pálsdóttir
Síðast breytt þann 1. maí 2014 kl: 18:16 af Þorgerður Pálsdóttir