Skráðu þig

Ingvar og Þorgerður sigurvegarar 5. umferð Crossbollans

10.03
2014
19:09

Ingvar og Þorgerður sigurvegarar 5. umferð Crossbollans

Þorgerður Pálsdóttir sigraði kvennaflokk með miklum yfirburðum og Ingvar Ómarsson sigraði karlaflokk eftir mikla baráttu við Benedikt Jónsson.

Eftir að 4. umferð Crossbollans var frestað í janúar og svo aflýst í febrúar var nú loks gott útlit fyrir góða færð í 5. umferð, sem þó þurfti að færa úr Ártúnsbrekku og í Mosfellsbæ vegna klaka. Þrátt fyrir að ísinn væri nánast alveg horfinn fengu keppendur gríðarlega erfiðar aðstæður eftir ótrúlega mikla snjókomu í vikunni, en snjórinn var mjög þéttur og rakur eftir hitaskot gærdagsins. Keppendur létu það þó ekki á sig fá og hátt í tuttugu manns mættu til að takast á við áskorunina.

Misvel gekk að berjast í gegnum snjóinn fyrir keppendur og snjóþunginn átti eftir að setja strik í reikninginn hjá mörgum, mikið var um mistök hjá keppendum á fyrstu hringjum og skiptust keppendur oft á sætum. Fljótlega tóku þó þeir Ingvar, Benedikt og Arnaldur Hilmisson forystuna í karlaflokknum og héldu henni ósnertir, Ingvar hélt fyrsta sætinu á meðan Benedikt sótti hart á hann alla keppnina en án árangurs en landaði þó öðru sæti og Arnaldur tók það þriðja. Strax í byrjun tók Þorgerður forystuna í kvennaflokknum og hélt henni út keppnina, Corrina Hoffmann og Þóra Katrín Gunnarsdóttir tókust á um annað sætið framan af en Corrina hafði betur í þeirri viðureign og landaði öðru sæti og Þóra því þriðja.

Þegar aðeins ein umferð er eftir af Crossbollanum er staðan ennþá æsi spennandi. Í kvennaflokki leiðir Þóra með 114 stig, Þorgerður er rétt á eftir með 100 stig og Corrina komin upp í þriðjasæti með 80 stig. í karlaflokki stígur Ingvar uppúr þriðja sætinu og leiðir nú með 151 stig en Benedikt fylgir fast á eftir með 148 stig og Óskar Ómarsson vermir nú þriðja sætið með 130 stig.

Lokaumferð Crossbollans fer fram þann 29. mars kl 11:00, frekari upplýsingar og skráning hér á hjolamot.is

Myndir frá Arnold Björnsson má sjá hér

Úrslit

Staðan í Crossbollanum

Óskar Ómarsson
Síðast breytt þann 12. mars 2014 kl: 16:47 af Óskar Ómarsson